Fótbolti

Valencia gæti neyðst til þess að selja Villa og Silva

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Villa og David Silva eru eftirsóttir.
David Villa og David Silva eru eftirsóttir. Nordic photos/AFP

Manuel Llorente, forseti Valencia, hefur viðurkennt að félagið hafi verið á barmi gjaldþrots í sumar og félagið hefði verið nálægt því að vera dæmt niður í spænsku c-deildina ef borgaryfirvöld í Valencia hefðu ekki komið til hjálpar.

Skuldir Valencia hljóða upp á um 500 milljónir evra en 74 milljón evra innspýting frá borgaryfirvöldum í Valencia hjálpuðu „Los Che" að ná endum saman. Búist er við því að félagið tapi enn frekar um 35-40 milljónum evra á yfirstandandi tímabili og Llorente játar því í viðtali við spænska blaðið AS að helstu fjárfestingar félagsins, framherjinn David Villa og miðjumaðurinn David Silva, gætu yfirgefið herbúðir félagsins ef ástandið heldur sem horfir.

„Það er alltaf gott að geta sagt að þú þurfir ekki að selja leikmenn en það er erfiður vegur framundan hjá Valencia. Þrátt fyrir að komi til sölu á leikmönnum þá er ekki þar með sagt að við ætlum ekki að vera samkeppnishæfir áfram," segir Llorente.

Ensku félögin Manchester United, Manchester City, Liverpool og Chelsea eru líkleg til þess að nýta sér erfiðleika Valencia ef til kemur að David Villa og David Silva verða settir á sölulista en spænsku félögin Barcelona og Real Madrid hafa einnig verið sterklega orðuð við tvímenningana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×