Körfubolti

Bandarísk þriggja stiga skytta í kvennalið KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jenny (Pfeiffer) Finora  átti farsælan háskólaferil með Kentucky.
Jenny (Pfeiffer) Finora átti farsælan háskólaferil með Kentucky. Mynd/Heimasíða Alabama Huntsville

Kvennalið KR hefur styrkt sig með erlendum leikmanni fyrir tímabilið en Jenny Finora, áður Jenny Pfeiffer, er komin til landsins til að spila með liðinu auk þess að þjálfa yngstu kvennaflokka félagsins.

Jenny (Pfeiffer) Finora átti farsælan háskólaferil með Kentucky-skólanum á árunum 2002 til 2007. Hún er meðal annars besta vítaskyttan í sögu skólans og aðeins tveir leikmenn í sögu Kentucky-skólans hafa náð því að skora fleiri þriggja stiga körfur en hún.

Jenny var með 10,1 stig á 22,9 mínútum að meðaltali í 96 leikjum með Kentucky-skólanum á árunum 2002 til 2007 en hún hitti þar úr 34,7 prósent þriggja stiga skota sinna og 86,1 prósent vítanna. Pfeiffer skoraði alls 162 þriggja stiga körfur í þessum 96 leikjum og hún hitti úr 247 af 287 vítum sínum.

Jenny hefur reyndar ekki spilað í tvö ár og er því að taka skóna fram að nýju með KR-liðinu. Hún lék sinn fyrsta leik um helgina þegar KR fór í Stykkishólm og spilaði æfingaleik við Snæfell. KR vann leikinn 80-66 og Jenny skoraði 11 stig og 8 stoðsendingar í leiknum. Nýju leikmenn KR-liðsins voru stigahæstir í leiknum því auk Jenny þá skoraði Unnur Tara Jónsdóttir 16 stig og landsliðsfyrirliðinn Signý Hermannsdóttir var með 13 stig.

Jenny hefur meistarapróf í íþróttastjórnun og var aðstoðarþjálfari hjá Alabama Huntsville-skólanum á síðasta vetri. Hún mun líka þjálfa hjá KR eins og eiginmaður hennar, Victor Finora. Jenny þjálfar minnibolta kvenna, 7. flokk kvenna og 8. flokks kvenna. Eiginmaður hennar, Victor, þjálfar 10. flokk, 11. flokk og drengjaflokk.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×