Fótbolti

Spánverjar komust í undanúrslit og settu met

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Spánverjar fagna síðara marki sínu í kvöld.
Spánverjar fagna síðara marki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP
Spánn komst í kvöld í undanúrslit Álfukeppninnar í Suður-Afríku með 2-0 sigri á heimamönnum í kvöld.

Það voru þeir David Villa og Fernando Llorente sem skoruðu mörk Evrópumeistaranna í kvöld.

Með sigrinum í kvöld settu Spánverjar nýtt heimsmet með því að vinna sinn fimmtánda leik í röð. Þeir jöfnuðu einnig met Brasilíu með því að leika sinn 35. taplausa leik í röð.

Ástralía, Brasilía og Frakkland höfðu öll unnið fjórtán leiki í röð og deilt metinu frá árinu 2004.

Spánverjar hafa unnið alla leiki sína síðan í júní í fyrra og ekki tapað leik síðan í nóvember árið 2006.

Þess má svo einnig geta að þetta er þó í fyrsta sinn í sögu Spánverja að landslið þeirra vinna gestgjafa á stórmóti í knattspyrnu. Er þá átt við HM, EM, Ólympíuleikana og Álfukeppnina. Ellefu tilraunir þurfti til.

Heimamenn komust þó áfram í undanúrslitin í kvöld þrátt fyrir tapið þar sem að Írak og Nýja-Sjáland gerðu markalaust jafntefli í kvöld.

Úrslit í B-riðli ráðast á morgun en þá mætast Ítalía og Brasilía annars vegar og hins vegar lið Egypta og Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×