Fótbolti

Framtíð Valencia svört

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernando Morientes og David Villa fagna marki með Valencia.
Fernando Morientes og David Villa fagna marki með Valencia. Nordic Photos / AFP

Óhætt er að segja að framtíð spænska úrvalsdeildarfélagsins Valencia sé allt annað en björt en félagið er sagt skulda um 400 milljónir punda eða tæpa 79 milljarða króna.

Félagið hóf að byggja nýjan leikvang fyrir fáeinum árum en hefur ekki náð að selja gamla landið vegna efnahagskreppunnar. Félagið gat ekki borgað fyrirtækinu sem var að byggja leikvanginn á síðasta keppnistímabili.

Forseti félagsins, Vicente Soriano, sagði af sér í gær og hefur það sett framtíð lykilmanna félagsins - eins og David Villa og David Silva - í mikið uppnám. Langlíklegast er að nýr forseti muni selja þá en þeir hafa verið orðaðir við Real Madrid, Barcelona og Chelsea.

„Ég ákvað að halda þeim Villa og Silva en ég er viss um að eftirmaður minn getur fengið meira fyrir þá nú en fyrir tólf mánuðum," sagði Soriano.

Soriano tók við forsetaembættinu í júlí síðastliðnum en náði ekki að ganga frá samkomulagi um greiðslu við byggingarfyrirtækið. Því ákvað hann að segja af sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×