Körfubolti

Sagan segir að KR-konur vinni einvígið 3-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir og félagar í KR eru komnar í góða stöðu.
Hildur Sigurðardóttir og félagar í KR eru komnar í góða stöðu. Mynd/Vilhelm

KR-konur urðu á laugardaginn fyrsta liðið í tólf ár sem vinnur opnunarleik lokaúrslita kvenna á útivelli síðan Grindavík vann fyrsta leik á útivelli árið 1997. Þau lið sem hafa unnið fyrsta leik á útivelli hafa unnið einvígið 3-0. Leikur tvö í úrslitaeinvígi Hauka og KR er í DHL-Höllinni klukkan 19.15 í kvöld.

KR vann níu stiga sigur á Haukum, 52-61, í fyrsta leik úrslitaeinvígis Iceland Express deildar kvenna á Ásvöllum. KR er aðeins þriðja liðið sem kemst í 1-0 án þess að vera með heimavallarrétt og bæði hin liðin (Grindavík 1997 og Breiðablik 1995) hafa unnið einvígið 3-0 og þar með Íslandsmeistaratitlinn.

KR-liðið hefur nú unnið fimm síðustu leiki sína í úrslitakeppninni eða alla leiki síðan að þær töpuðu 60-70 í Grindavík 5. mars síðastliðinn. Frá þeim tíma hefur KR-liðið unnið oddaleikinn á móti Grindavík, alla þrjá leikina í einvíginu á móti Keflavík og svo fyrsta leik lokaúrslitanna um helgina.

KR-konur urðu líka í dag fyrsta alíslenska liðið sem vinnur fyrsta leik lokaúrslitanna á útivelli en í tvö fyrri skiptin sem útilið hefur komist í 1-0 var bandaríski leikmaðurinn Penny Peppas allt í öllu hjá sínu liði.

Grindavík vann fyrsta leikinn í lokaúrslitunum 1997, 47-50, á móti KR í Hagaskóla 22. mars 1997. Penny Peppas skoraði þá 31 stig fyrir Grindavík en KR-liðið var án bandarísk leikmanns. Grindavík vann næstu tvo leiki, fyrst 59-47 í Grindavík og svo 62-55 eftir framlengingu í þriðja leiknum.

Breiðablik vann fyrsta leikinn í lokaúrslitunum 1995, 81-98, á móti Keflavík í Keflavík 31. mars 1995. Penny Peppas skoraði þá 49 stig fyrir Breiðablik en Keflavíkurliðið var án bandarísk leikmanns. Breiðablik vann næstu tvo leiki, fyrst 61-52 í Smáranum og svo 66-53 í þriðja leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×