Körfubolti

Cleveland vann Phoenix örugglega með 17 stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lebron James sést hér verja skot frá Amare Stoudemire í nótt.
Lebron James sést hér verja skot frá Amare Stoudemire í nótt. Mynd/AP
LeBron James gældi við þrefalda tvennu og Shaquille O'Neal skoraði tólf stig á móti sínum gömlu félögum í öruggum 107-90 sigri Cleveland Cavaliers á Phoenix Suns sem tapaði sínum öðrum leik í röð á ferð sinni um austurströndina.

LeBron James var með 12 stig, 10 stoðsendingar og 8 fráköst fyrir Cavaliers og Zydrunas Ilgauskas skoraði 14 stig í sínum 724 leik fyrir félagið sem er nýtt félagsmet en Danny Ferry átti gamla metið. Channing Frye var með 22 stig fyrir Phoenix og Steve Nash skoraði 14 stig en var með fleiri tapaða bolta (6) en stoðsendingar (5).

John Salmons skoraði 22 stig og Derrick Rose var með 19 stig í 92-85 sigri Chicago Bulls á Detroit Pistons en með því endaði Chicago-liðið fimm leikja taphrinu. Ben Gordon var stigahæstur hjá Detroit með 18 stig en hann var að spila á móti sínu gamla félagi.

Earl Boykins skoraði 11 af 13 stigum sínum á síðustu tíu mínútunum í 104-102 sigri Washington Wizards á Milwaukee Bucks. Gilbert Arenas var stigahæstur hjá Washington með 22 stig en Luke Ridnour og Hakim Warrick skoruðu báðir 20 stig fyrir Milwaukee.

Tyreke Evans skroaði 26 stig í fjórða heimasigri Sacramento Kings í röð en liðið vann þá 110-105 sigur á Indiana Pacers. Jason Thompson bætti við 22 stig og Spencer Hawes var með 21 stig fyrir Kings. Danny Granger skoraði 33 stig í þriðja tapi Indiana í röð.

Aaron Brooks hitti úr átta fyrstu skotum sínum og endaði með 22 stig í 102-85 sigri Houston Rockets á Los Angeles Clippers. Chase Budinger var með 19 stig fyrir Houston eins og Al Thornton sem var stigahæstur hjá Los Angeles.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×