Körfubolti

Houston og Orlando tryggðu sér oddaleik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rondo og félagar þurfa að hafa fyrir hlutunum.
Rondo og félagar þurfa að hafa fyrir hlutunum.

Stórliðin LA Lakers og Boston Celtics töpuðu bæði í nótt og ljóst að það verða því tveir oddaleikír í NBA næsta sunnudag. Houston skellti Lakers, 95-80, og staðan í rimmunni 3-3 rétt eins og hjá Orlando og Boston eftir 83-75 sigur Orlando í nótt.

Houston byrjaði ótrúlega gegn Lakers í nótt. Komst í 17-1 og hafði drjúga forystu í leikhléi. Lakers byrjaði síðari hálfleik af sama krafti og Houston byrjaði leikinn og tókst að minnka muninn í tvö stig.

Þá sagði Houston hingað og ekki lengra. Steig á bensínið á nýjan leik og landaði að lokum sigri og tryggði sér þar með oddaleik á sunnudag.

„Ég hef ekki heyrt annað síðustu daga en að við séum ekki að fara til LA aftur. Strákarnir neituðu að trúa þvi," sagði Rick Adelman, þjálfari Houston, en Rockets-strákarnir hafa komið gríðarlega á óvart í rimmunni enda án Tracy McGrady og Yao Ming.

Dwight Howard kvartaði yfir því að fá boltann ekki nóg í fimmta leik Orlando og Boston. Hann fékk boltann í gær og skilaði 23 stigum og 22 fráköstum í sigri Orlando. Hann þarf að stíga upp einu sinni enn í rimmunni ef Orlando ætlar sér að komast í úrslit í Austurdeildinni.

„Dwight Howard hafði greinilega rétt fyrir sér þegar hann gagnrýndi þjálfarann sinn. Hann var ótrúlegur," sagði Doc Rivers, þjálfari Boston.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×