Sport

Arum: Mayweather þorir ekki að mæta Pacquiao

Ómar Þorgeirsson skrifar
Manny „Pac-Man“ Pacquiao ásamt Bob Arum.
Manny „Pac-Man“ Pacquiao ásamt Bob Arum. Nordic photos/AFP

Bob Arum, forgöngumaður fyrir WBO-veltivigtarmeistarann Manny „Pac-Man" Pacquiao frá Filippseyjum, skýtur föstum skotum á hinn ósigraða Floyd Maweather Jr. frá Bandaríkjunum í nýlegu viðtali og segir hann hræddan við skjólstæðing sinn.

Mayweather Jr. lét nýlega hafa eftir sér að það væri hlutverk Pacquiao að stiga fram og skora á sig í bardaga en Arum heldur því fram að Mayweather Jr. hafi alltaf skorast undan þegar menn sem gætu eyðilagt 40-0 tölfræði hans, en hann hefur sem segir unnið alla fjörtíu bardaga sína til þessa, kæmu fram.

„Málið er bara það að Mayweather er svo upptekinn af því að halda hreinu í tölfræðinni að hann yrði aldrei andlega tilbúinn fyrir bardaga gegn meistara á borð við Pacquiao.

Hann er hræddur og þess vegna hefur hann náð að koma sér undan bardögum við frábæra hnefaleikamenn á borð við Shane Mosley, Antonio Margarito og Miguel Cotto," lét Arum hafa eftir sér.

Það er vonandi fyrir hnefaleikaaðdáendur að ummæli Arum séu bara hluti af sálfræðistríði fyrir mögulegan bardaga á milli Pacquiao og Mayweather sem eru jafnan nefndir til sögunnar þegar talað er um bestu pund fyrir pund hnefaleikamenn í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×