Skoðun

Einangrun Þorsteins Pálssonar

Ögmundur Jónasson skrifar
Ögmundur Jónasson svarar grein Þorsteins Pálssonar.

Í rökræðu gerist það að menn beiti fyrir sig samlíkingum sem í kjölfarið víkja rökhugsun til hliðar. Frægir heimspekingar hafa verið annálaðir fyrir fimi í þessu efni. Plató tókst að sannfæra marga lesendur sína um réttmæti fámennis­stjórnar í þjóðfélagi með samlíkingu við skip í stórsjó. Hásetar á skipi þurfi fortakslaust að hlýða skipunum skipstjórans; ekki síst þegar gefur á. Flestum lesendum Platós þykir þetta vera sannfærandi eða þar til þeir gaumgæfa málið. Þá rennur upp fyrir þeim hið augljósa: Þjóðfélag er ekki skip í stórsjó.

Eins er það með hugarburðinn um torfærurnar sem ráðamenn á Íslandi hafa sagst vera staddir í undanfarna tólf mánuði. Síðastliðið haust sögðust leiðtogar ríkisstjórnar­innar vera að brjótast í gegnum skafla, síðan tóku brekkurnar við, að ógleymdum stórfljótunum. Þorsteinn Pálsson, stjórnmálarýnir Fréttablaðsins, telur sig nú vera úti í einu slíku stórfljóti. Hann kemst að þeirri niðurstöðu í skrifum um nýliðna helgi að aldrei hafi „þótt ráðlegt að snúa hesti í miðju straumvatni. Við ríkjandi aðstæður væri það beinlínis háskalegt."

Hross Þorsteins er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Sú skoðun, að því fyrr sem við losnum við AGS þeim mun betra, er „háskaleg", að mati Þorsteins, sem gæti leitt til viðsnúnings bykkjunnar. En ef það er raunverulega svo að kröfur AGS um gjaldeyrisvaraforða, sem kostar skattgreiðendur 20 milljarða á ári, og niðurskurðarkröfur sem gætu þegar til lengri tíma litið, dýpkað kreppuna gagnstætt því sem lagt er upp með, er þá ekki rétt að taka nýja og heillavænlegri stefnu? Mæla ekki rök með því?

Þorsteinn Pálsson sakar mig sérstaklega um einangrunarhyggju fyrir að halda þessum sjónarmiðum fram. Nú heyri ég ekki betur en þeim fjölgi óðfluga sem eru á sama máli og ég. Þannig verður ekki betur séð en ég eigi góða samleið með sístækkandi hópi á sama tíma og stefnir í hugmyndalega einangrun Þorsteins Pálssonar.

Höfundur er alþingismaður.

 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×