Körfubolti

Abdul-Jabbar: Howard er dálítið fyrirsjáanlegur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Dwight Howard í baráttu við LeBron James og Ben Wallace hjá Cleveland.
Dwight Howard í baráttu við LeBron James og Ben Wallace hjá Cleveland. Nordic photos/AFP

Körfuboltagoðsögnin Kareem Abdul-Jabbar sér ekki bjarta framtíð fyrir miðherjann Dwight Howard hjá Orlando Magic ætli hann sér bara að byggja leik sinn á tröllatroðslum og líkamlegum styrk.

Abdul-Jabbar var á sínum tíma þekktur fyrir að beita sveifluskoti sem mótherjar hans áttu oft á tíðum erfitt með að verjast og hann segir að Howard þurfi að eitthvað því um líkt í vopnabúr sitt.

„Sóknarlega er Howard enn dálítið hrár. Hann hefur ekki neitt sérstakt sóknarvopn sem hann getur beitt fyrir utan líkamlegan styrk og það gerir hann dálítið fyrirsjáanlegan," segir þessi fyrrum leikmaður LA Lakers vann sex NBA meistaratitla og var sex sinnum valin besti leikmaður deildarinnar á löngum og farsælum ferli.

Howard segir Abdul-Jabbar hafa rétt fyrir sér og viðurkennir að ekkert gangi hjá honum sjálfum að ná tökum á sveifluskotinu fræga.

„Það er hárrétt það sem Kareem segir, að til þess að verða frábær leikmaður þarf maður að vera mjög fjölhæfur. Ég hef reynt að æfa sveifluskotin eins og hann en ég er ekki með jafn góða tækni og jafn mjúkar hreyfingar. Ég meina, maðurinn var að taka sveifluskot frá þriggja stiga línunni. Ég á enn langt í land með það," segir Howard á léttum nótum.

Fjórði leikur LA Lakers og Orlando Magic fer fram í nótt kl. 01 og verður í Arnway-höllinni í Flórída. Staðan er 2-1 í einvíginu en næstu tveir leikirnir fara fram á heimavelli Orlando Magic.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×