Körfubolti

Leikmaður Houston skotinn í löppina

Carl Landry slapp vel í nótt
Carl Landry slapp vel í nótt Nordic Photos/Getty Images

Framherjinn Carl Landry hjá Houston Rockets í NBA deildinni varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu þegar hann var á ferð í miðborg Houston í nótt.

Samkvæmt frétt Houston Chronicle var Landry að keyra um miðborgina klukkan að ganga fimm um nóttina þegar ekið var aftan á bifreið hans.

Þegar framherjinn fór út úr bílnum til að skoða skemmdirnar, var hinni bifreiðinni ekið af stað og hleypt var af tveimur byssuskotum í átt til hans.

Annað þeirra fór í löppina á honum og sagt er að hann verði frá keppni í að minnsta kosti tvær vikur vegna þessa.

Landry kom seint heim til Houston í gærkvöld eftir að lið hans vann góðan sigur á New Orleans Hornets í New Orleans, en leikurinn var einmitt sýndur beint á NBA TV sjónvarpsrásinni í nótt.

Hann kom heim eftir miðnætti að staðartíma en tók þá örlagaríku ákvörðun að fara aftur út um nóttina.

Landry er á sínu öðru ári í deildinni og er með 9,3 stig og 5 fráköst að meðaltali í leik.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×