Sport

Vick vill komast aftur í NFL

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vick vill komast aftur í boltann.
Vick vill komast aftur í boltann. Nordic Photos/Getty Images

Hin fallna NFL-stjarna, Michael Vick, er loksins laus úr fangelsi og hyggur á endurkomu í NFL-deildina. Vick var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að skipuleggja hundaat, veðmál því tengdu sem og að ala upp hunda í slagsmálin.

Vick var á sínum tíma launahæsti leikmaður deildarinnar enda hæfileikaríkur leikstjórnandi með eindæmum.

Hann er aftur fyrir rétti þessa dagana enda orðinn gjaldþrota. Vick stefnir þó á að fylla veskið sitt aftur með því að snúa aftur í NFL-deildina en ef hann ætlar þangað aftur verður þarf hann að fá leyfi frá deildinni sem hann hefur ekki fengið.

„Ég veit að ég get ekki lifað lengur eins og gamli Mike Vick. Ég var mjög óþroskaður og gerði hluti sem hæfa ekki fyrirmyndum eins og mér," sagði Vick fyrir dómi en hann segist hafa þroskað mikið í fangelsinu.

Leikstjórnandinn fyrrverandi segist hafa eytt dögunum í fangelsi við að lesa, skrifa, spila körfubolta og vinna sem húsvörður fyrir 12 sent á klukkutímann.

Vick segist vera í fínu líkamlegu formi og vonast til þess að komast að hjá liði í NFL en Atlanta Falcons vill ekki sjá hann aftur. Hann segist vonast til þess að geta spilað í 10-12 ár í viðbót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×