Fótbolti

Mun færri mættu á kynningu Benzema en hjá Ronaldo og Kaka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema á fundinum í dag.
Karim Benzema á fundinum í dag. Mynd/AFP

Real Madrid kynnti Karim Benzema fyrir stuðningsmönnum sínum á Santiago Bernabeu í dag en áður hafði liðið haldið kynningarfundi fyrir þá Cristiano Ronaldo og Kaka. Real keypti Benzema frá franska liðinu Lyon fyrir upphæð sem gæti farið alla leið upp í 35 milljónir punda.

Það komu um 90 þúsund stuðningsmenn Real á kynninguna á Ronaldo á mánudaginn og um 55 þúsund komu þegar Kaka var kynntur í síðustu viku. Að þessu sinni mættu "aðeins" 20 þúsund stuðningsmenn en það var meira en nóg fyrir hinn 21 árs gamla Frakka.

„Þetta var mjög spennandi. Stuðningsmenn Real hafa sérstakt samband við leikmenn sína og ég er þakklátur fyrir þá. Þetta var tilfinningarrík stund og þess vegna kyssti ég merki Real," sagði Benzema sem klæddist númerslausri treyju á kynninginni og á því enn eftir að finna sér númer. Ronaldo verður númer 9 og Kaka spilar í treyju númer 8.

„Ég ætla ekki að lofa ákveðnum fjölda af mörkum sem ég mun skora en ég vonast til að skora mörg mörk. Lið með leikmenn eins og Kaka, Ronaldo og Raul ætti að eiga auðvelt með að skora fullt af mörkum," sagði Benzema.

Benzema sagði að Manchester United, Inter Milan og Barcelona hefði öll viljað fá sig en það hafi verið æskudraumur sinn að spila fyrir Real Madrid og því hafi valið ekki verið erfitt fyrir hann.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×