Körfubolti

NBA í nótt: Loks vann Lakers í Detroit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant í leiknum í nótt.
Kobe Bryant í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

LA Lakers batt enda á níu leikja taphrinu liðsins á heimavelli Detroit er Lakers unnu þar fimmtán stiga sigur í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 92-77.

Kobe Bryant skoraði 30 stig fyrir Lakers sem tók forystuna í þriðja leikhluta og var sigurinn ekki í hættu eftir það.

Lakers vann síðast í Detroit þann 8. janúar 2002 en þessi lið mættust í úrslitum NBA-deildarinnar árið 2004 þar sem Detroit fór með sigur af hólmi.

Þetta var fjórði sigur Lakers í röð en liðið er með næstbesta árangurinn í NBA-deildinni og er einum sigurleik á eftir Cleveland.

Detroit hins vegar hefur ekki átt jafn góðu gengi að fagna á tímabilinu. Sem stendur er liðið í áttunda sæti Austurdeildarinnar og því á leið í úrslitakeppnina eins og staðan er nú.

Þeir Allen Iverson, Richard Hamilton og Rasheed Wallace voru allir fjarverandi vegna meiðsla í gær. Will Bynum var stigahæstur hjá Detroit með 25 stig og ellefu stoðsendingar.

Chicago vann Miami, 106-87. John Salmons skoeraði 27 stig fyrir Chicago sem vann sinn sjötta sigur af síðustu sjö leikjum sínum.

Portland vann Phoenix, 129-109. LaMarcus Aldridge skoraði 29 stig og tók tólf fráköst er Portland batt enda á sex leikja sigurgöngu Phoenix.

Staðan í deildinni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×