Körfubolti

LA Lakers komið í 2-0 eftir sigur í framlengdum leik

Ómar Þorgeirsson skrifar
Kobe Bryant og Pau Gasol fagna í Staples Center í nótt.
Kobe Bryant og Pau Gasol fagna í Staples Center í nótt. Nordicphotos/Gettyimages

Los Angeles Lakers er komið í þægilega stöðu gegn Orlando Magic í úrslitaeinvígi liðanna í NBA deildinni eftir 101-96 sigur í framlengdum leik í Staples Center í nótt og leiðir nú 2-0.

Góður varnarleikur beggja liða var í fyrirrúmi í leiknum en staðan var 35-40 í hálfleik og 88-88 að venjulegum leiktíma loknum en LA Lakers sýndi enn og aftur styrk sinn í framlenginunni.

Kobe Bryant var atkvæðamestur hjá LA Lakers með 29 stig en Pau Gasol kom næstur með 24 stig. Hjá Orlando Magic var Rashard Lewis stigahæstur með 34 stig en Hedo Turkoglu var með 22 stig.

Bryant fékk tækifæri til þess að tryggja sigurinn í lok venjulegs leiktíma en skot hans var varið af Turkoglu þegar tæpar tvær sekúndur lifðu leiks. Magic náði að taka leikhlé og setja upp laglega fléttu á 0,6 sekúndum sem eftir voru en Courtney Lee náði ekki að blaka boltanum rétta leið og skot hans geigaði undir körfunni.

Gasol var svo betri en enginn í framlengingunni og skoraði þá sjö af þrettán stigum La Lakers, þar af fimm stig af vítalínunni og lokatölur eins og segir 101-96.

„Ég er augljóslega ánægður með að Lee hitti ekki úr skoti sínu í lok vengjulegs leiktíma, það hefði verið hræðilega svekkjandi og staðan í einvíginu væri þá allt önnur en hún er núna," segir Gasol ánægður í leikslok.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×