Körfubolti

NBA í nótt: Enn tapar New Jersey

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Devin Harris og Lawrence Frank, þjálfari New Jersey, í leiknum í nótt.
Devin Harris og Lawrence Frank, þjálfari New Jersey, í leiknum í nótt. Mynd/AP

New Jersey tapaði í nótt sínum fjórtánda leik í röð í NBA-deildinni og hefur því enn ekki unnið einn einasta leik á tímabilinu til þessa.

New Jersey tapaði í nótt fyrir Denver á útivelli, 101-87, og vantar nú aðeins þrjá tapleiki til að jafna „árangur "Miami Heat frá 1988 og LA Clippers frá 1999 sem bæði töpuðu þá fyrstu sautján leikjum tímabilsins. Það er versta byrjun liðs í sögu NBA-deildarinnar.

New Jersey byrjaði þó ágætlega í leiknum í nótt og komst yfir í upphafi fyrsta leikhluta. Það var þó fljótt að breytast og sigldi Denver fljótlega fram úr og gerði svo út um leikinn í þriðja leikhluta.

Denver skoraði alls 60 stig í vítateignum, 29 stig úr hraðaupphlaupum og New Jersey tapaði alls 23 boltum í leiknum.

Carmelo Anthony skoraði 27 stig fyrir Denver og Nene kom næstur með sautján og níu fráköst.

Hjá New Jersey voru Rafer Alston og Devin Harris stigahæstir með nítján stig hvor. Terrenc Williams skoraði fjórtán stig. Alston var eini byrjunarliðsmaðurinn sem komst yfir tíu stig í leiknum.

Toronto vann Indiana, 123-112, og tapaði Indiana þar með sínum fjórða leik í röð. Chris Bosh var með sextán stig og tólf fráköst fyrir Toronto. Þetta var tólfta tvöfalda tvennan hans í síðustu fimmtán leikjum.

Washington vann Philadelphia, 108-107. Antawn Jamison var með 32 stig og fjórtán fráköst fyrir Washington en eigandi liðsins, Abe Pollin, lést í gær, fáeinum klukkustundum fyrir leikinn. Nick Young skoraði 20 stig en Caron Butler gat ekki spilað vegna meiðsla.

Oklahoma City vann Utah, 104-94. Kevin Durant skoraði 28 stig og gaf átta stoðsendingar. Jeff Green var með nítján stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar.

Golden State vann Dallas, 111-103. Monta Ellis skoraði 37 stig og Anthony Morrow bætti við 27. Dirk Nowitzky var stigahæstur hjá Dallas með 28 stig og tíu fráköst.

LA Lakers vann New York, 100-90. Kobe Bryant skoraði 34 stig og Pau Gasol ellefu auk þess sem hann tók sextán fráköst. Ron Artest var með sautján stig.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×