Körfubolti

NBA-deildin: Gasol sneri aftur með stæl í sigri Lakers

Ómar Þorgeirsson skrifar
Pau Gasol.
Pau Gasol. Nordic photos/AFP

Þrír leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þar sem hæst bar endurkoma Spánverjans Pau Gasol í sannfærandi 108-93 sigri LA Lakers gegn Chicago Bulls í Staples Center.

Gasol var stighæstur hjá Lakers með 24 stig í sínum fyrsta leik á tímabilinu eftir að vera búinn að jafna sig af meiðslum og var eðlilega hæst ánægður í leikslok.

„Ég gæti ekki verið ánægðari. Ég get ekki sagt að ég hafi átt von á því að koma svona sterkur til baka og í fyrsta leik eftir meiðslin en ég skemmti mér konunglega og allt gekk upp," sagði Gasol.

Kobe Bryant kom næstur hjá Lakers með 21 stig en þau stig duguðu honum til þess að fara fram úr Kareem Abdul-Jabbar sem annar stigahæsti leikmaður í sögu Lakers með 24.182 stig en Jerry West er á toppnum á listanum með 25.192 stig.

Peja Stojakovic fór fyrir sínum mönnum í New Orleans Hornets sem vann 110-103 sigur gegn Phoenix Suns en hann skoraði 25 stig og tók 13 fráköst en Amare Stoudemire var stigahæstur hjá Suns með 23 stig.

Þá náði Utah Jazz að vinna langþráðan 83-90 sigur gegn San Antonio Spurs en Jazz var ekki búið að vinna Spurs í síðustu tuttugu viðureignum liðanna. Deron Williams var stigahæstur hjá Utah með 21 stig en Tim Duncan skoraði 21 stig fyrir Spurs.

Úrslitin í nótt:

LA Lakers-Chicago 108-93

New Orleans-Phoenix 110-103

San Antonio-Utah 83-90



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×