Enski boltinn

Perez: Geri allt sem ég get til að fá Ronaldo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar marki í leik með Manchester United.
Cristiano Ronaldo fagnar marki í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Florentino Perez, forseti Real Madrid, segir að hann ætli að gera allt sem í hans valdi stendur til að fá Cristiano Ronaldo til félagsins nú í sumar.

Gengið var frá kaupum Real Madrid á Brasilíumanninum Kaka seint í gærkvöldi. Kaupverðið var 59 milljónir punda eða um 12,3 milljarða króna. Það gerir Kaka að dýrasta knattspyrnumanni sögunnar.

Ef Perez ætlar sér að kaupa Ronaldo er líklegt að Kaka verði ekki sá dýrasti lengi.

„Kaupin á Kaka eru bara þau fyrstu í röðinni," sagði Perez í samtali við spænska fjölmiðla. „Ég mun gera allt sem ég get til að fá Cristiano Ronaldo til félagsins."

„Það eina sem ég hef gert er að feta sömu slóð og Santiago Bernabeu gerði," sagði Perez en Bernabeu er frægur fyrir að gera Real Madrid að því stórveldi sem það er í dag. Hann fékk til að mynda Alfredo di Stefano til félagsins á sínum tíma. „Það þýðir að fá bestu leikmenn heims til okkar, bestu leikmenn Spánar og með besta unglingastarfið."

Xabi Alonso, leikmaður Liverpool, hefur einnig verið orðaður við Real Madrid en Perez gerði lítið úr þeim sögusögnum. „Hann er frábær leikmaður en hann spilar með stóru félagi og ég hef ekki heyrt af því að það ætli sér að selja hann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×