Skoðun

Opinber innkaup

Vigdís Hauksdóttir skrifar
Tilgangur laga nr. 84/2007 um opinber innkaup er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu. Samkvæmt 3. gr. laganna taka lögin til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila.

Viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu er að finna í reglugerð nr. 807/2007.

Viðmiðunarfjárhæðir vegna skyldu til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 78. gr. laga nr. 84/2007 skulu vera sem hér segir: opinberir aðilar - viðmiðunar-fjárhæðir vegna skyldu til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 78. gr. laganna hjá opinberum aðilum að frátöldum sveitarfélögum og stofnunum eru eftirfarandi: vöru- og þjónustusamningar 11.690.000 kr. og verksamningar 449.490.000 kr. Þegar sveitarfélög, stofnanir þeirra og aðrir opinberir aðilar á þeirra vegum eiga í hlut eru viðmiðunarfjárhæðir þessar: vöru- og þjónustusamningar 17.980.000 kr. og verksamningar 449.490.000 kr. Almennt er kveðið á um útboð í lögum nr. 65/1993 um framkvæmd útboða og eiga þau lög við um opinber útboð eins langt og þau ná, það er að segja þegar ekki er vikið frá þeim í lögum um opinber innkaup eða öðrum sérlögum.

Þegar innkaup/verk eru yfir eftirtöldum viðmiðunarfjárhæðum er meginreglan sú að þau þarf að auglýsa á öllu EES svæðinu með birtingu í Stjórnartíðindum ESB. Hefur þetta í för með sér að erlend fyrirtæki hafa tækifæri á að bjóða í innkaup/verk hér á landi. Nú þegar atvinnuleysi hefur náð nýjum hæðum er mikilvægt að ríki og sveitarfélög leggist á eitt og hugleiði umfang innkaupa/verka til að halda þeim á innanlandsmarkaði án þess að brjóta gegn reglum EES-samningsins. Verði tekin meðvituð ákvörðun um að hafa umfang útboða undir viðmiðunarfjárhæðum er hægt að skapa fleirum atvinnu með auknum verkfjölda. Ég tel að þessi aðgerð komi til með að fleyta mörgum fyrirtækjum og einyrkjum sem nú eru í rekstri og framleiðslu yfir erfiðasta hjallann.

Höfundur skipar 1. sætið fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×