Fótbolti

Eto'o boðinn nýr samningur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samuel Eto'o og Pep Guardiola.
Samuel Eto'o og Pep Guardiola. Nordic Photos / AFP
Umboðsmaður Samuel Eto'o segir að Barcelona hafi boðið skjólstæðingi sínum nýjan samning sem gildir til næstu tveggja ára.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag. Þar sagði umboðsmaðurinn, Josep Mesalles, að Eto'o hafi fengið þau skilaboð frá Pep Guardiola, stjóra Barcelona, í vor að hann væri ekki í framtíðaráætlunum Guardiola.

"Guardiola sagði þegar að tímabilinu lauk að hann væri ánægður með Samuel og því veit ég ekki hvað breyttist," sagði Mesalles. "Það voru mín mistök að fá það ekki staðfest því við þurfum að fá að vita hvað þjálfarinn vill. Það er hann sem tekur ákvarðanirnar á endanum."

Mesalles sagði enn fremur að hann vilji frekari viðræður við Barcelona til að komast að því hvað það var sem leiddi til þess að félagið bauð honum skyndilegan nýjan samning.

Manchester City hefur boðið Barcelona 25 milljónir punda í Eto'o en Mesalles og Eto'o hafa ekki rætt við félagið. Ef viðræðurnar við Börsunga sigla í strand væri hann reiðubúinn að fara til Manchester City.

Núverandi samningur Eto'o rennur út eftir eitt ár og því ekkert því til fyrirstöðu að hann klári samninginn sinn þar og fari svo frítt frá félaginu eftir eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×