Körfubolti

NBA í nótt: Charlotte með gott tak á Lakers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Charlotte fagna sigrinum í nótt.
Leikmenn Charlotte fagna sigrinum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Charlotte vann í nótt sigur á LA Lakers í tvíframlengdum leik, 117-110, og sýndi að liðið er með gott tak á einu besta liði deildarinnar.

Charlotte hefur unnið fimm af síðustu sex leikjum liðanna sem er afar góður árangur.

Boris Diaw átti stórleik fyrir Charlotte og skoraði 23 stig, tók níu fráköst og gaf níu stoðsendingar. Varamaðurinn Shannon Brown átti einnig góðan leik en hann skoraði fimm af sínum fjórtán stigum í síðari framlengingunni.

Kobe Bryant var með 38 stig fyrir Lakers en það dugði ekki til. Lakers hafði unnið fjóra leiki í röð og fjórtán af síðustu sautján fyrir leikinn í nótt.

Cleveland vann Sacramento, 117-110, og er þar með enn ósigrað á heimavelli í deildinni í vetur. Mo Williams skoraði 43 stig í leiknum og bætti þar með persónulegt met en LeBron James var með þrefalda tvennu í leiknum - hann skoraði 23 stig, tók fimmtán fráköst og af ellefu stoðsendingar.

Kevin Martin skoraði 35 fyrir Sacramento og John Salmons 21 en þetta var sjötti tapleikur liðsins í röð. Liðið hefur tapað öllum nítján leikjum sínum gegn liðum frá austrinu í vetur.

Orlando vann Indiana, 135-111. Mickael Pietrus skoraði 27 stig og var með tíu fráköst fyrir Orlando en hann hafði misst af síðustu tólf leikjum liðsins vegna meiðsla. Rashard Lewis var með 24 stig og Dwight Howard 22.

Denver vann Memphis, 100-85. Chauncey Billups skoraði 29 stig, þar af fjórtán í röð í þriðja leikhluta. Denver hefur nú unnið 30 af fyrstu 45 leikjum sínum á tímabilinu sem er besta byrjun félagsins í sögu þess.

San Antonio vann Utah, 106-100. Tim Duncan var með 24 stig og tók níu fráköst og þá var Manu Ginobili með þrettán stig, þar af tíu í fjórða leikhluta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×