Körfubolti

Denver vann sitt fyrsta einvígi í úrslitakeppni í fimmtán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var gaman hjá liðsmönnum Denver í nótt.
Það var gaman hjá liðsmönnum Denver í nótt. Mynd/GettyImages

Denver Nuggets er komið áfram í undanúrslit Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta eftir 107-86 sigur á New Orleans Hornets í nótt. Denver vann einvígið 4-1 og mætir Dallas í næstu umferð. Atlanta er komið í 3-2 á móti Miami eftir 106-91 sigur.

„Þetta er góð tilfinning. Við erum búnir að leggja mikið á okkur en það er nóg eftir enn. Við ætlum samt að leyfa okkur að njóta þessa sigur aðeins," sagði Carmelo Anthony sem var stigahæstur hjá Denver með 34 stig.

Chauncey Billups var með 13 stig og 11 stoðsendingar hjá Denver og J.R. Smith skoraði 15 af 20 stigum sínum í seinni hálfleik. Þetta var fyrsta sinn síðan 1994 sem Denver-liðið kemst í 2. umferð úrslitakeppninnar.

Leikurinn var jafn framan af en í stöðunni 62-62 skildu leiðir. Denver skoraði 24 af næstu 28 stigum og stakk af. Denver fylgdi þarna eftir 58 stiga sigri í fjórða leiknum í fyrrinótt.

„Þeir hafa svo mörg vopn og eru með mjög sterkt lið sem er erfitt að eiga við," sagði Chris Paul sem var með 12 stig og 10 stoðsendingar hjá New Orleans. David West var stigahæstur hjá liðinu með 24 stig.

„Ég er stoltur af mínu liði. Það er búinn að vera allt annar andi í liðinu á þessu tímabili. Við vorum að reyna of mikið framan af í þessum leik en ég sagði mínum að róa sig og slaka á því við værum með betra körfuboltalið," sagði George Karl, þjálfari Denver.

Joe Johnson skoraði 25 stig í 106-91 sigri Atlanta Hawks á Miami Heat og Flip Murray bætti við 23 stigum.  Atlanta er þar með komið í 3-2 en næsti leikur er í Miami á föstudagskvöldið.

Sigur Atlanta var öruggur en liðið var 63-40 yfir í hálfleik. Dwyane Wade var með 29 stig fyrir Miami en stærstan hluta þeirra skoraði hann í lokin þegar úrslitin voru ráðin.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×