Körfubolti

Kemur Jameer Nelson inn í Orlando-liðið fyrir lokaúrslitin?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jameer Nelson sést hér í jakkafötum að hvetja sína menn til dáða.
Jameer Nelson sést hér í jakkafötum að hvetja sína menn til dáða. Mynd/GettyImages
Orlando Magic er komið í lokaúrslit NBA-deildarinnar í fyrsta sinn í 14 ár og mætir þar liði Los Angeles Lakers. Fyrsti leikurinn er á fimmtudaginn og svo gæti farið að Orlando Magic væri búið að fá góðan liðstyrk fyrir þann leik.

Jameer Nelson, leikstjórnandi Orlando, sem var valinn í Stjörnuleikinn í vetur, meiddist illa á öxl og var búist við að hann myndi missa af öllu tímabilinu. Endurhæfing hans hefur þó gengið það vel að nú eru Orlando-menn að velta sér fyrir því hvort liðið eigi að nota hann á móti Lakers.

Nelson hefur ekkert leikið síðan í febrúar en hann hefur verið að æfa á fullu að undanförnu og það hefur hægt að fylgjast með honum á bekknum í leikjum liðsins. Þar hefur hann verið áberandi og reynt að hvetja sína menn áfram.

Ein stærsta ástæðan fyrir því af hverju Orlando-menn eru að velta því fyrir sér að koma með Nelson inn í liðið fyrir lokaúrslitin er hversu vel hann spilaði á móti Lakers í deildarleikjum liðanna fyrr í vetur.

Liðin mættust tvisvar á tímabilinu og vann Orlando-liðið báða leikina. Nelson skoraði 27,5 stig og gaf 6,5 stoðsendingar að meðaltali í þessum leikjum.

Hann var með 27 stig í 106-103 sigri í Orlando 20. desember og skoraði síðan 28 stig í 109-103 sigri í Los Angeles 16. janúar. Nelson hitti úr 58,8 prósent skota sinna þar af setti hann niður 7 af 12 þriggja stiga skotum sínum



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×