Körfubolti

Barkley: Michael Jordan er besti körfuboltamaður allra tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan og Charles Barkley.
Michael Jordan og Charles Barkley. Mynd/AFP

Michael Jordan verður í dag tekinn inn í Frægðarhöll bandaríska körfuboltans ásamt þeim John Stockton, David Robinson og þjálfurunum Jerry Sloan og Vivian Stringer. Flestir eru á því að Jordan sé besti körfuboltamaður allra tíma og einn af þeim er Charles Barkley.

„Michael Jordan er að mínu mati besti körfuboltamaður allra tíma," segir Charles Barkley. „Við skuldum honum allir pening," segir Barkley á sinn einstaka hátt og útskýrir það síðan frekar:

„Það eru þrír leikmenn sem við skuldum mikinn pening. Fyrst voru það Magic (Johnson) og (Larry) Bird sem rifu upp NBA-deildina á sínum tíma og síðan fór Jordan með NBA-deildina upp á annað stig," sagði Barkley og á því við að vinsældir NBA-deildarinnar hafi skilað honum og öðrum NBA-leikmönnum vænum upphæðum í launaumslögum sínum.

Jordan vann allt á sínum frábæra ferli og fær nú lokaviðurkenningu sína þegar hann er tekinn inn í Frægðarhöllina eins fljótt og mögulegt er. Leikmenn þurfa að vera hættir í sex ár til þess að koma til greina. Bæði Jordan og Stockton lögðu skónna hilluna árið 2003.

Michael Jordan var ótrúlegur keppnismaður sem lagði endalaust mikið á sig til að bæta sig sem leikmaður. Hann vann sex NBA-titla með Chicago Bulls og tvö Ólympíugull með bandaríska landsliðinu auk endalausra einstaklingsafreka. „Jordan er langbestur og það kemst enginn nálægt honum," sagði Steve Kerr, framkvæmdastjóri Phoenix Suns og fyrrum félagi Jordan hjá Chicago Bulls.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×