Körfubolti

James með 38 stig í sigri Cleveland

LeBron James sækir að Manu Ginobili í leiknum í Cleveland í kvöld
LeBron James sækir að Manu Ginobili í leiknum í Cleveland í kvöld AFP

Einum leik er þegar lokið í NBA deildinni í körfubolta í kvöld. LeBron James skoraði 38 stig fyrir Cleveland sem vann öruggan 101-81 sigur á San Antonio á heimavelli sínum.

Cleveland hefur unnið 37 leik á heimavelli í vetur og tapað aðeins einum, en ef liðið vinnur síðustu þrjá heimaleiki sína getur það jafnað NBA met Boston Celtics yfir besta heimaárangur á tímabili sem sett var árið 1986.

Þá hefur Cleveland unnið 26 leiki og tapað aðeins fjórum gegn liðum úr Vesturdeildinni og er það besti árangur liðs úr Austurdeild í meira en þrjá áratugi.

Tony Parker var atkvæðamestur hjá San Antonio í leiknum í kvöld en fékk litla hjálp frá þeim Manu Ginobili (4 stig) og Tim Duncan (6 stig), sem skoraði öll stig sín á fyrstu þremur mínútum leiksins.

Cleveland hafði tapað tveimur leikjum í röð, þeim síðari mjög illa, en það var liðinu greinilega kærkomið að snúa aftur á heimavöllinn.

Cleveland hefur unnið 62 leiki og tapað aðeins 15 og á góða möguleika á að verða með bestan árangur allra liða í deildinni þegar úrslitakeppnin hefst þann 18. apríl nk.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×