Íslenski boltinn

Freyr: Hefði getað endað hvernig sem er

Ómar Þorgeirsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari Vals.
Freyr Alexandersson, þjálfari Vals. Mynd/Stefán

Freyr Alexandersson, þjálfari Vals, var ágætlega sáttur með að taka eitt stig gegn Breiðabliki í kvöld.

Jafnteflið þýðir að liðin eru áfram jöfn að stigum á toppi deildarinnar en markamunur Vals er það hagstæður gagnvart Breiðabliki að hann jafnast nánast á við stig.

„Mér fannst þetta vera mjög jafnt. Þetta voru tvö góð lið sem komu mjög stressuð inn í leikinn og fyrstu tuttugu til tuttugu eða fimm mínútur leiksins voru raunar frekar slakar. Svo skapa bæði lið sér fullt af færum og leikurinn hefði í raun getað endað hvernig sem er.

Við vorum meira með boltann í seinni hálfleik og hefðum kannski mátt skapa okkur opnari marktækifæri en við fengum mikið af fyrirgjöfum og upphlaupum. Ég er í heildina mjög sáttur með spilamennsku míns liðs og vinnuframlag og hugarfar leikmannanna," segir Freyr.

Freyr hrósaði markverðinum Maríu Björgu Ágústsdóttur sérstaklega í leikslok en hún átti sannkallaðan stjörnuleik í marki Íslandsmeistaranna.

„Vörslurnar hjá Mæju í þessum leik voru náttúrulega af dýrari gerðinni. Það verður að segjast eins og er. Hún var algjörlega frábær," segir Freyr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×