Körfubolti

Boston tapaði í Utah

Paul Pierce og félagar töpuðu í Salt Lake City
Paul Pierce og félagar töpuðu í Salt Lake City AP

Tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Utah vann góðan sigur á meisturum Boston á heimavelli sínum 90-85.

Boston missti Kevin Garnett meiddan af velli undir lok fyrri hálfleiks og kom hann ekki meira við sögu í leiknum. Ekki er talið að hnémeiðsli hans séu alvarleg, en tíðinda er að vænta af því fljótlega.

Boston náði mest ellefu stiga forystu í þriðja leikhlutanum en missti heimamenn fram úr sér í fjórða leikhlutanum sem Utah vann 30-19. Boston gerði sér erfitt fyrir með lélegri vítanýtingu og töpuðum boltum.

Paul Pierce var stigahæstur hjá Boston með 20 stig en hitti aðeins 2 af 9 skotum sínum í fjórða leikhlutanum. Mehmet Okur skoraði 19 stig fyrir Utah og Deron Williams 18 stig og 10 stoðsendingar.

Læra ekki að meta hann fyrr en hann hættir

San Antonio og Detroit, liðin sem áttust við í lokaúrslitum árið 2005, mættust í Detroit og þar höfðu gestirnir í San Antonio betur 83-79.

Tony Parker skoraði 19 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir San Antonio og Tim Duncan var með 18 stig og 18 fráköst.

Allen Iverson skoraði 31 stig fyrir Detroit, sem hefur tapað fimm leikjum í röð og 14 af síðustu 19.

Michael Curry þjálfari Detroit hafði þetta um Tim Duncan að segja eftir leikinn. "Það segir sína sögu um Duncan að manni finnst hann ekki hafa átt sérstakan leik þegar hann skorar 18 stig og hirðir 18 fráköst. Fólk á ekki eftir að gera sér grein fryir því hve stórkostlegur leikmaður hann er fyrr en hann hættir," sagði þjálfarinn.

Gregg Popovich þjálfari San Antonio staðfesti eftir leikinn að Manu Ginobili ætti eftir að missa úr 2-3 vikur vegna ökklameiðsla sem eru að hrjá hann.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×