Sport

Federer brast í grát

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roger Federer réði ekki við tilfinningar sínar eftir tapið fyrir Nadal.
Roger Federer réði ekki við tilfinningar sínar eftir tapið fyrir Nadal. Nordic Photos / Getty Images
Roger Federer var gjörsamlega niðurbrotinn eftir að hann tapaði fyrir Rafael Nadal í úrslitum opna ástralska meistaramótsins í tennis.

Eins og venja er halda báðir keppendur ræðu eftir að þeir veita sínum verðlaunum viðtöku en Federer gat varla komið upp orði þar sem hann brast í grát.

„Mér hefur liðið betur," sagði hann. „Takk fyrir stuðninginn. Þið voruð ótrúleg," sagði hann og átti við áhorfendur. „Kannski að ég reyni aftur seinna. Þetta er alveg að fara með mig," stundi hann upp og labbaði frá hljóðnemanum.

Þá kom Rafael Nadal upp á sviðið og tók við sigurlaunum sínum. En Federer vildi klára sína ræðu svo hann þyrfti ekki að tala á eftir Nadal.

„Ég vil ekki eiga síðasta orðið - hann á það skilið. Rafa, til hamningju - þú átt þetta skilið. Ég óska þér alls hins besta á tímabilinu."

Federer hefur unnið þrettán slemmtitla á ferlinum en metið á Pete Sampras sem hefur unnið fjórtán slíka. Þetta var hins vegar fyrsti sigur Nadal í Ástralíu en hann er nú einnig ríkjandi meistari á Wimbledon-mótinu og opna franska meistaramótinu.

„Roger, mér þykir fyrir þessu. Ég veit nákvæmlega hvernig þér líður. Þú verður bara að muna að þú ert mikill meistari og einn sá besti í sögunni. Ég er viss um að þú munir jafna met Sampras," sagði Nadal í sinni ræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×