Fótbolti

Barcelona ætlar að bjóða Messi 4,7 milljónir í laun á dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi er einn allra besti knattspyrnumaður heims.
Lionel Messi er einn allra besti knattspyrnumaður heims. Mynd/AFP

Evrópumeistarar Barcelona ætla að passa upp á það að þeir missi ekki argentínska undrabarnið Lionel Messi og nú eru fréttir frá bæði Spáni og Ítalíu um að félagið ætli að bjóða hinum 22 ára gamla sóknarmanni nýjan langtíma samning.

Nýr samningur myndi tryggja það að Lionel Messi yrði launahæsti leikmaður liðsins en nú er það Svíinn Zlatan Ibrahimovic sem er nýkominn til Barcelona-liðsins. Lionel Messi á að fá 9,5 milljónir evra í árslaun eða 1723 milljónir íslenskra króna. Það þýðir að hann fengi 4,7 milljónir í laun á dag alla 365 daga ársins.

Það er hægt að kaupa upp núverandi samning Barcelona við Lionel Messi fyrir 150 milljónir evra en í nýja samningnum þá þyrftu menn að borga 300 milljónir evra fyrir Argentínumanninn.

Lionel Messi er búinn að spila allan sinn feril hjá Barcelona eftir að hafa komið upp í gegnum unglingastarf félagsins. Hann fékk sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu árið 2004 og er búinn að skora 54 mörk í 109 deildarleikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×