Viðskipti innlent

Eyrir Invest hagnaðist um 1,5 milljarða í fyrra

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest.

Eyrir Invest hagnaðist um 1,5 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 769,7 milljónir króna í hitteðfyrra. Fjárfestingafélagið, sem er kjölfestufjárfestir Marel Food Systems og næststærsti hluthafi stoðtækjafyrirtækisins Össurar, hefur gripið til viðamikilla aðgerða gegn erfiðum aðstæðum á mörkuðum og meðal annars samið um framlengingu lána fram til 2011.

Tekjur fjárfestingafélagsins námu 25 milljónum króna í fyrra samanborið við 1,2 milljarða árið á undan. Fyrir tekjuskatt er hins vegar tap upp á 240 milljónir króna en jákvæð skattafærsla upp á rúma 1,7 milljarða.

Eigið fé nam tæpum 31,4 milljörðum króna í lok árs en það var 18,1 milljarðar árið á undan. Eiginfjárhlutfall nemur 40,8 prósentum. Laust fé og aðrar bankainnistæðum nema rúmum 6,9 milljörðum króna.

Tekið er fram í uppgjöri félagsins að Eyrir gerir bókhald sitt upp í evrum frá áramótum. Miðað við það námu heildareignir 452 milljónum evra og eigið fé 184 milljónum evra.

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra, í tilkynningu, að félagið sé sátt við að skila lítils háttar hagnaði við afar erfiðar aðstæður. „Við höfum skilað góðri ávöxtun í fortíð og höfum þolinmæði og styrk til að takast á við núverandi aðstæður á heimsmörkuðum. Samkeppnisstaða félaga okkar er firnasterk og þau eru í lykilaðstöðu til að skapa veruleg verðmæti þegar hjól atvinnulífsins fara að snúast á nýjan leik. Víða má nú sjá fyrstu merki þess að hið versta sé að baki og heimsviðskipti að taka við sér að nýju eftir snögga og djúpa niðursveiflu."

Uppgjör Eyris Invest








Fleiri fréttir

Sjá meira


×