Körfubolti

Cuban hellti sér yfir móður leikmanns

Mark Cuban er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum
Mark Cuban er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum Nordic Photos/Getty Images

Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks í NBA deildinni, brást við fokreiður eins og flestir þegar lið hans tapaði þriðja leiknum gegn Denver í annari umferð úrslitakeppninnar.

Denver vann leikinn á ævintýralegu skoti skömmu fyrir leikslok fyrir tilstilli mistaka dómara leiksins. Mistökin þóttu það dýr að dómarar gáfu út yfirlýsingu eftir leikinn þar sem mistökin voru viðurkennd - nokkuð sem er fáheyrt í deildinni.

Allt Dallas-liðið brást mjög illa við mótlætinu eftir leikinn og í hasarnum á eigandi Dallas að hafa hellt sér yfir móður Kenyon Martin, leikmanns Denver, og kallað son hennar öllum illum nöfnum ef marka má frétt Denver Post um málið.

Forráðamenn NBA deildarinnar eru nú að fara yfir myndbandsupptökur af hasarnum og ganga úr skugga um hvort þessar ásakanir reynast réttar.

Mark Cuban er ekki óvanur því að vera í sviðsljósinu vegna ummæla sinna og gjörða og hefur þurft að borga meira en 100 milljónir króna í sektir því tengt síðan hann keypti Dallas árið 2000. 



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×