Sport

Íslendingarnir neðstir eftir brunið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aksel Lund Svindal frá Noregi.
Aksel Lund Svindal frá Noregi. Nordic Photos / AFP

Þeir Stefán Jón Sigurgeirsson og Árni Þorvaldsson eru í neðstu sætum alpatvíkeppninnar á HM í alpagreinum eftir brunhlutann sem fór fram í morgun.

Stefán Jón var með rásnúmer 41 af 49 keppendum og varð í 43. sæti á 1:38,80 mínútum. Árni var með rásnúmer 46 og var í neðsta sæti af þeim keppendum sem kláruðu á 1:40,42 mínútum.

Fjórir keppendur féllu úr leik í bruninu, þeirra á meðal Austurríkismaðurinn Benjamin Raich sem þótti einna sigurstranglegastur. Þá var Bandaríkjamaðurinn Ted Ligety dæmdur úr leik.

Aksel Lund Svindal frá Noregi fékk besta tímann í bruninu í morgun, 1:30,99 mínútur. Bode Miller frá Bandaríkjunum kom næstur, fjórum hundraðshlutum á eftir Svindal, og Frakkinn Adrien Theaux var þriðji, tæpri sekúndu á eftir Svindal.

30 efstu keppendurnir fara niður í öfugri röð í svighluta keppninnar sem hefst klukkan 16.00 í dag. Aðrir fara niður í réttri röð sem þýðir að Íslendingarnir eru síðastir. Þeir eru þó betri í tæknigreinum en hraðagreinum og eiga því möguleika á að bæta sig í sviginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×