Körfubolti

Keflavík fær sér stóran kvennakana í fyrsta sinn í mörg ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viola Beybeyah í leik með Oklahoma City.
Viola Beybeyah í leik með Oklahoma City. Mynd/Heimasíða SAC

Kvennalið Keflavíkur hefur ráðið til sína nýjan leikmann en bandaríski framherjinn Viola Beybeyah er að koma til landsins á morgun. Beybeyah er ekki dæmigerður kvennakani í Keflavík enda hafa erlendu leikmenn liðsins alltaf verið leikstjórnendur undanfarin ár.

„Það verður fróðlegt að takast á við þetta að fá stóran leikmann en ekki leikstjórnanda. Þetta verður svolítið öðruvísi," segir Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur.

Viola Beybeyah er 180 sm framherji sem var valin besti leikmaðurinn í NAIA-deildinni árið 2008. Hún kemur úr Oklahoma City skólanum alveg eins og Kesha Watson sem spilaði frábærlega með Keflavík í tvö tímabil og kom síðan inn í liðið fyrir úrslitakeppnina í fyrra.

Viola Beybeyah var með 12,2 stig og 6,8 fráköst á lokaári sínu með Oklahoma City þar sem að hún hitti úr 49,2 prósent skota sinan og 65,1 prósent vítanna. Hún var stigahæsti leikmaður liðsins sem vann 28 af 33 leikjum sínum á tímabilinu.

„Kesha spilaði eitt tímabil með henni og hún sagði að þetta væri mikill baráttuhundur og rosalega vinnusömu," segir Jón Halldór en bætir við: „Þetta á bara eftir að koma almennilega í ljós en svona einn lítill myndbandsbútur segir manni ekki neitt."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×