Fótbolti

Real fyrir gerðadóm vegna Diarra og Huntelaar

Lassana Diarra
Lassana Diarra AFP

Real Madrid hefur ekki gefist upp í viðleitni sinni til að þeir Klaas Jan Huntelaar og Lassana Diarra verði löglegir með liðinu í Meistaradeildinni.

Leikmennirnir eru nýkomnir til Real en spiluðu með liðum sínum í Evrópukeppni félagsliða fyrr á leiktíðinni.

Knattspyrnusamband Evrópu hafnaði beiðni Real um að skrá þá til leiks í Meistaradeildinni í síðustu viku, en Spánverjarnir sætta sig ekki við þá niðurstöðu og ætla með málið fyrir Gerðadóm íþrótta.

Reglur Knattspyrnusambands Evrópu gera félögum kleift að skrá þrjá nýja leikmenn til keppni áður en 16-liða úrslitin hefjast í febrúar, en aðeins einn eirra má hafa spilað í Evrópukeppni með öðru liði á sama tímabili.

Nýr forseti Real, Vicente Boluda, ætlar hinsvegar ekki að una þessu og ætlar að láta reyna á að fá báða leikmenn samþykkta áður en liðið mætir Liverpool í 16-liða úrslitunum.

Liðin eigast við heima og úti dagana 25. febrúar og 10. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×