Körfubolti

Iverson staðfestir áhuga Grizzlies á Twitter-síðu sinni

Ómar Þorgeirsson skrifar
Allen Iverson.
Allen Iverson. Nordic phtotos/AFP

Stjörnubakvörðurinn Allen Iverson er enn ekki búinn að ná lendingu í sínum málum og alls óvíst er hvar leikmaðurinn, sem er fáanlegur á frjálsri sölu frá Detroit Pistons, muni leika á næsta keppnistímabili í NBA-deildinni.

Fyrr í vikunni var talið að leikmaðurinn væri að nálgast Charlotte Bobcats og Iverson viðurkenndi sjálfur að hann myndi gjarnan vilja leika aftur undir stjórn Larry Brown, sem þjálfaði Iverson hjá Philadelphia 76ers á sínum tíma.

Bobcats er hins vegar til sölu og á í talsverðum fjárhagslegum erfðileikum og því ólíklegt að félagið geti tekið við leikmanninum út af þessarri óvissu og óreiðu varðandi fjárhaginn.

Miami Heat var einnig sterklega orðað við Iverson en félagið hefur til þessa ekki getað búið til svigrúm í launakostnaði sínum til þess að geta boðið leikmanninum almennilegan samning vegna reglna um launaþak í deildinni.

Iverson tilkynnti hins vegar á Twitter-síðu sinni í gær að Memphis Grizzlies sé búið að gera honum samningstilboð og forráðamenn félagsins hafa síðar staðfest fregnirnar.

Búist er við því að Iverson muni reyna að ganga frá sínum málum á næstu dögum en leikmaðurinn lék aðeins 57 leiki vegna meiðsla á síðasta keppnistímabili með Nuggets og Pistons og skoraði að meðaltali 17,5 stig í þeim leikjum sem er lægsta meðal skorið á ferli hans til þessa í NBA-deildinni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×