Fótbolti

Barcelona vill halda Alexander Hleb

Ómar Þorgeirsson skrifar
Alexander Hleb.
Alexander Hleb. Nordic photos/Getty images

Txiki Beguiristain stjórnarformaður Barcelona hefur ítrekað að Hvít-Rússinn Alexander Hleb sé ekki á förum frá Katalóníufélaginu þrátt fyrir að miðjumaðurinn hafi átt erfitt uppdráttar á síðustu leiktíð.

Hleb átti við meiðsli á ökkla að stríða í fjórar vikur og náði í raun aldrei að stimpla sig almennilega inn í liðið hjá Börsungum. Hleb byrjaði aðeins átta leiki og af þeim var honum skipt út af í fimm.

Beguiristain segir leikmanninn þó fá sinn tíma til þess að ná áttum hjá félaginu.

„Við börðumst ekki svo mikið til þess að fá hann, bara til þess að láta hann fara strax frá okkur," segir Beguiristain í samtali við Stuttgarter Zeitung.

Hleb sjálfur er sagður vera að missa þolinmæðina á að reyna að berjast um byrjunarliðsstöður við Xavi, Andres Iniesta og Yaya Toure og gæti því sótt um að fá að vera settur á sölulista í sumar en leikmaðurinn er samningsbundinn Meistaradeildarmeisturunum til ársins 2012.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×