Fótbolti

Félögin í efstu deild á Spáni skulda 430 milljarða

Valencia er sagt skulda yfir 80 milljarða króna
Valencia er sagt skulda yfir 80 milljarða króna NordicPhotos/GettyImages
Skuldastaða flestra knattspyrnufélaga í efstu deildum á Spáni er skelfileg og mörg þeirra eiga eftir að fara á hausinn að öllu óbreyttu.

Þetta segir Jose Maria Gay, prófessor við háskólann í Barcelona og sérfræðingur í fjármálum knattspyrnufélaga.

Í gær bárust fréttir af slæmri afkomu stórliðsins Valencia sem sér jafnvel fram á að þurfa að selja sína bestu menn til að fara ekki á hausinn.

Félagið á í greiðsluerfiðleikum, á vart fyrir launum og hefur afskrifað áform um að byggja nýjan heimavöll. Sagt er að Valencia skuldi yfir 80 milljarða króna.

Valencia er ekki eina félagið á Spáni sem hefur lifað um efni fram undanfarin ár og félögin í efstu deild á Spáni skulda 430 milljarða, sem er á pari við skuldir félaga í ensku úrvalsdeildinni segir Jose Maria Gay.

Kreppan á Spáni nú er ein sú versta sem riðið hefur yfir landið í hálfa öld, en Real Madrid og Barcelona finna ekki eins mikið fyrir henni og hin liðin, því risarnir tveir hala inn stóran hluta af styrktar- og sjónvarpssamningum í landinu.

Gay prófessor segir að forráðamenn atvinnudeildarinnar, spænska knattspyrnusambandið og spænska ríkisstjórnin hefðu átt að vera búin að grípa inn í fyrir löngu, en enginn virðist hafa þorað að ríða á vaðið.

Sex félög á Spáni, þar á meðal Celta Vigo, Real Sociedad og Levante í annari deildinni, eru þegar í greiðslustöðvun og fleiri gætu fylgt á eftir þar sem þau ráða illa við háar launagreiðslur og minnkandi tekjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×