Sport

Phelps opnar sig um hasspípumálið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Phelps viðurkennir að hafa gert heimskuleg mistök.
Phelps viðurkennir að hafa gert heimskuleg mistök. Nordic Photos/Getty Images

Sundkappinn Michael Phelps hefur loksins rofið þögnina um hasspípumálið fræga. Málið snýst um mynd af Phelps þar sem hann fær sér að reykja úr hasspípu.

„Ég gerði slæm mistök. Ég meina, við vitum öll hvað var þarna í gangi. Þetta voru heimskuleg mistök. Ég gerðist sekur um slæma dómgreind. Ég mun læra af þessu og hjálpa öðrum að gera ekki sömu mistök," sagði Michael Phelps við NBC-sjónvarpsstöðina.

Viðtalið við Phelps verður birt í þáttunum Today og Dateline en brot úr viðtalinu hafa verið send út.

Phelps segist í viðtalinu litlar áhyggjur hafa af þeim peningum sem hann tapar vegna málsins en þegar hafa einhverjir styrktaraðilar snúið baki við honum. Phelps segist hafa meiri áhyggjur af ættingjum sínum sem hann hafi ollið sársauka með framferði sínu.

Myndin fræga af Phelps var tekin í háskóla í Suður-Karólínu fylki þar sem sundkappinn var í fríi.

„Það voru kannski tveir eða þrír á staðnum sem ég þekkti ekki. Það voru mjög fáir þarna, sex eða sjö manns. Þetta var ekkert risateiti. Við vorum bara nokkur saman að skemmta okkur," sagði Phelps sem sagðist hafa treyst fólkinu sem var á staðnum.

„Það er mikið af fólki þarna úti sem vill græða á aðstæðum. Stundum getur verið sárt að læra af reynslunni," sagði Phelps svekktur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×