Fótbolti

Cristiano Ronaldo bað félaga sína afsökunar eftir leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fær hér rauða spjaldið í gær.
Cristiano Ronaldo fær hér rauða spjaldið í gær. Mynd/AFP

Cristiano Ronaldo var fullur iðrunar eftir 4-2 sigurleik Real Madrid á Almeria í spænsku úrvalsdeildinni í gær. Ronaldo var lykilmaður í að Real kom til baka eftir að hafa lent 1-2 undir en hann lét síðan reka sig útaf í lok leiksins. Ronaldo lét líka verja frá sér víti sem hann fékk sjálfur.

Það vakti athygli að Ronaldo fagnaði ekki með félögum sínum eftir að Karim Benzema hafði fylgt á eftir vítaspyrnu hans og komið Real Madrid í 3-2. „Ég var reiður sjálfum mér eftir að hafa klikkað á vítinu," sagði Ronaldo. „Mér líkar ekki að mistakast því ég er fullkomnunaristi. Ég gefst heldur aldrei upp og ég var mjög ánægður með markið hans Karims," sagði Ronaldo.

Ronaldo skoraði fjórða markið sjálfur og fékk þá fyrra gula spjaldið sitt með því að fara úr treyjunni í fagnaðarlátunum. Hann fékk síðan gult spjald fjórum mínútum síðar fyrir að sparka niður Juanma Ortiz leikmann Almeria sem hafði ögrað honum.

„Þetta voru ósjálfráð viðbrögð en ég veit að ég gerði mistök. Ég er bara mannlegur. Hlutir gerast í fótboltaleikjum og maður verður bara að læra af þeim. Ég hef beðið félaga mína í liðinu um að fyrirgefa mér," sagði Ronaldo sem verður í leikbanni á móti Valencia um næstu helgi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×