Fótbolti

Rossi bíður eftir símtali frá Ítalíu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Giuseppe Rossi.
Giuseppe Rossi. Nordic photos/Getty images

Umboðsmaður ítalska landsliðsframherjans Giuseppe Rossi hjá Villarreal viðurkennir að skjólstæðingur sinn myndi hugsa sér til hreyfings ef eitthvað af stóru félögunum á Ítalíu kæmu kallandi.

Rossi hefur vakið mikla athygli með Villarreal síðan hann kom til félagsins á 6,6 milljónir punda frá Manchester United árið 2007 og hefur skorað 23 mörk í 57 leikjum í spænsku deildinni.

„Staða hans hjá Villarreal er dálítið flókin en hann er alls ekki óánægður og við erum að skoða framlengingu á núverandi samningi hans við félagið. Ef að símtal frá stóru félagi, helst frá Ítalíu, myndi berast þá myndum við aftur á móti skoða það vel og vandlega," segir umboðsmaðurinn Federico Pastorello í samtali við útvarpsstöðina Radio Kiss í Napólí.

Manchester United er þó sagt hafa forkaupsrétt á hinum 22 ára gamla Rossi og knattspyrnustjórinn Sir Alex Ferguson sagður vera að fylgjast vel með gangi mála hjá framherjanum efnilega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×