Körfubolti

Níunda tröllatvennan hjá Dwight Howard á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard treður í körfuna í nótt.
Dwight Howard treður í körfuna í nótt. Mynd/GettyImages

Dwight Howard átti enn einn stórleikinn með Orlando Magic í nótt þegar Orlando Magic vann 88-82 sigur á Atlanta Hawks í NBA-deildinni í körfubolta.

Orlando ætlar að berjast um efstu sætinu í Austurdeildinni og fylgdi eftir frábærum sigri á móti Cleveland með því að vinna Atlanta í nótt. Orlando er búið að setja mikla pressu á Boston í baráttunni um annað sætið í austrinu.

Dwight Howard var með 21 stig og 23 fráköst og var þetta í níunda sinn í vetur þar sem hann nær svokallaðri tröllatvennu það er yfir 20 í tveimur tölfræðiþáttum. Joe Johnson skoraði 21 stig fyrir Atlanta.

Dwyane Wade var með 33 stig og Miami Heat setti á svið þriggja stiga sýningu í fjórða leikhluta í 118-104 sigri á Washington Wizards. Wade og James Jones voru báðir með þrjá þrista í lokaleikhlutanum þar sem Miami setti félagsmet með því að hitta úr átta þriggja stiga skotum.

Caron Butler var með 27 stig fyrir Wizards.

Denver Nuggets vann Los Angeles Clippers 120-104 og hefur nú unnið 11 af síðustu 12 leikjum sínum. J.R. Smith kom með 34 stig inn af bekknum og var stigahæsti leikmaður liðsins annan leikinn í röð. Carmelo Anthony var með 18 stig en hjá Clippers var Zach Randolph stigahæstur með 22 stig.

Rudy Gay var með 26 stig í 107-102 sigri Memphis Grizzlies á Milwaukee Bucks. Þetta var fjórði sigur Grizzlies í röð. Marc Gasol var með 19 stig fyrir Memphis en stigahæstur hjá Milwaukee var Richard Jefferson með 24 stig.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×