Körfubolti

NBA í nótt: Draumakvöld fyrir LeBron

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron tekur við MVP-styttunni frá David Stern fyrir leikinn í nótt.
LeBron tekur við MVP-styttunni frá David Stern fyrir leikinn í nótt. Nordic Photos / Getty Images
LeBron James var í nótt krýndur besti leikmaður tímabilsins í NBA-deildinni í körfubolta og hélt upp á það með stórsigri á Atlanta í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppninnar í Austurdeildinni.

Cleveland vann Atlanta, 99-72, þar sem James skoraði 34 stig og tók tíu fráköst.

Atlanta vann Miami í sjö leikjum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en Cleveland vann 4-0 sigur á Detroit og þurfti að bíða í níu daga á milli leikja.

Enda byrjaði Atlanta betur í fyrsta leikhluta á meðan að Cleveland var að hrista af sér slenið. En heimamenn náðu undirtökunum í leiknum í öðrum leikhluta og unnu á endanum 27 stiga sigur.

Mo Williams skoraði 21 stig fyrir Cleveland sem hefur nú unnið fimm fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni með minnst tíu stiga mun. Engu liði hefur tekist það síðan Detroit afrekaði það árið 2004.

Josh Smith skoraði 22 stig fyrir Atlanta og Mike Bibby nítján.

Denver vann Dallas, 117-105, og tók þar með 2-0 forystu í einvígi liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

Leikurinn var jafn framan af og Dallas náði svo forystunni í þriðja leikhluta. En þá tapaði Jason Kidd boltanum, Chauncey Billups náði honum og gaf á JR Smith sem skoraði. Eftir það litu heimamenn aldrei um öxl og unnu á endanum tólf stiga sigur.

„Þetta var lykilatriði í leiknum," sagði Carmelo Anthony, leikmaður Denver, eftir leik. „Chauncey hefði getað látið boltann fara út af vellinum en hann elti boltann og gaf stoðsendingu á JR. Við náðum svo að skora aftur og aftur. Þetta var gríðarlega mikilvægt."

Anthony skoraði 25 stig í leiknum, þar af fimmtán í fjórða leikhluta og tíu í 16-2 spretti sem gerði út um leikinn. Nene var einnig með 25 stig, Smith var með 21 og Billups átján.

Dirk Nowitzky skoraði 35 stig fyrir Dallas.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×