Körfubolti

Danny Ainge fékk hjartaáfall

Danny Ainge er hér tekinn hálstaki af Kevin Garnett eftir að Boston vann titilinn í fyrrasumar
Danny Ainge er hér tekinn hálstaki af Kevin Garnett eftir að Boston vann titilinn í fyrrasumar Nordic Photos/Getty Images

Danny Ainge, framkvæmdastjóri Boston Celtics og fyrrum leikmaður félagsins, er nú á batavegi eftir að hafa fengið hjartaáfall í dag. Það var sjónvarpsstöðin WCVB í Boston sem greindi frá þessu í kvöld.

Ainge vaknaði með verk fyrir brjósti í morgun og var fluttur á spítala, en þar kom í ljós að hann var með stíflaða slagæð. Hann var ekki á síðasta leik Boston í deildarkeppninni vegna veikinda, en búist er við því að hann nái sér að fullu eftir þessa uppákomu eftir því sem fram kemur í fréttum vestra.

Ainge lék með sigursælu liði Celtics fyrir rúmum tveimur áratugum síðan og tók við framkvæmdastjórastöðunni hjá félaginu árið 2003.

Það á ekki af Boston liðinu að ganga þessa dagana, því fyrr í dag bárust þær fréttir af NBA meisturunum að framherjinn og varnarjaxlinn Kevin Garnett gæti ekki leikið með liðinu í fyrstu leikjum úrslitakeppninnar sem hefst um helgina. Svörtustu spár segja að hann gæti misst af allri úrslitakeppninni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×