Fótbolti

Guardiola vill mæta ensku liði í 8 liða úrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona.
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona. Mynd/GettyImages

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, sagði eftir 5-2 sigur á Lyon í Meistaradeildinni í gær að hann vildi mæta ensku liði í átta liða úrslitunum. Fjögur ensk lið eru með í pottinum og því meira en helmingslíkur á að Guardiola verði að ósk sinni.

"Ef þú ætlar að vinna Meistaradeildina þá verður þú að spila við bestu liðin í Evrópu," sagði Guardiola á blaðamannafundi eftir Lyon-leikinn. "Við viljum fá þá áskorun og það væri skemmtileg tilfinning að ná árangri á móti einu af ensku liðunum. Ef við mætum ensku liði þá er öruggt að þar verður um góðan leik að ræða," bætti Guardiola við.

Líkt og hjá Manchester United þá er Barcelona í fullu fjöri í mörgum keppnum, liðið er með sex stiga forskot á Real Madrid í spænsku deildinni og er komið alla leið í bikarúrslitaleikinn.

Barcelona getur mætt eftirtöldum liðum í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar: Manchester United , Chelsea, Arsenal, Liverpool, Bayern Munich, Porto eða Villarreal.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×