Fótbolti

Real Madrid drap ástríðu mína fyrir fótbolta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Julien Faubert.
Julien Faubert. Nordic Photos/Getty Images

Frakkinn Julien Faubert var lánaður frá West Ham til Real Madrid síðasta vetur. Þau vistaskipti hafa ekki gengið neitt sérstaklega enda var Faubert í kælinum hjá Juande Ramos þjálfara.

Honum var þess utan kennt um allt mögulegt þegar illa gekk hjá Real Madrid. Hann var sagður vera of þungur og svo var hann eitt sinn sýndur á bekknum og virtist hann vera sofandi.

Nú vonast Faubert til þess að komast til félags þar sem hann geti spilað fótbolta og fundið ástríðuna á ný.

„Ég vil ekki eyða meiri tíma í vitleysu og vonandi finn ég ástríðuna aftur því hún var farin," sagði Faubert.

„Þetta var flókið í Madrid og ég fékk aldrei neinar almennilegar skýringar á því af hverju ég fékk ekki að spila. Ég var til í að vera þolinmóður en þá var bara sagt að ég væri latur. Mér var kennt um allt mögulegt," sagði Frakkinn frekar súr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×