Fótbolti

Sir Alex: Ætli þeir verði ekki bara að nota Ronaldo í miðverðinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo spilar með Real Madrid næstu árin.
Cristiano Ronaldo spilar með Real Madrid næstu árin. Mynd/AFP

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur sérstaklega gaman af því þessa daganna að gagnrýna kaupæði félaga eins og Manchester City og Real Madrid en þangað fóru tveir af bestu leikmönnum hans í sumar - Cristiano Ronaldo til Real og Carlos Tevez til City.

Ferguson segir bæði liðin kaupa eintóma sóknarleikmenn og stórstjörnur og það munu vanta allt jafnvægi í þau þegar kemur að því að mynda sterka liðsheild.

Fyndnasta skot Ferguson var í átt til spænska liðsins þar sem hann talaði um að það væri svo mikið ójafnvægi í liði Real að Cristiano Ronaldo yrði líklega á endanum að spila sem miðvörður.

„Ég veit ekki hvernig Manuel Pellegrini ætlar að stilla upp liði sínu þar sem það er ekkert jafnvægi í liðinu. Ég sagði Ronaldo áður en hann fór að hann yrði örugglega að spila sem miðvörður því liðið væri ekki með neinn slíkan leikmann," sagði Ferguson kíminn.

Það er því enn lið Barcelona sem Ferguson lítur á sem sinn aðalkeppinaut í Meistaradeildinni á næsta tímabili og hann er sannfærður um að hans lið myndi lifa af að missa besta knattspyrnumann heims að hans mati - Cristiano Ronaldo.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×