Skoðun

Grænar ferðir

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir skrifar
Í gær var samþykkt einróma í borgarstjórn stefna borgarinnar í samgöngumálum starfsmanna og fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar. Grænar ferðir er stefna sem hefur áhrif á ferðamáta starfsmanna borgarinnar. Reykjavíkurborg vill með þessu sýna fordæmi með því að innleiða vistvænar samgöngur í starfsemi sinni.

Reykjavíkurborg sýnir fordæmi með því að innleiða nýja hugsun varðandi ferðir starfsmanna, með því að stuðla að jöfnum tækifærum þeirra sem velja annað en einkabílinn og með því að innleiða vistvænar samgöngur sem notaðar eru í vinnuferðir hjá borginni. Undir vistvænar samgöngur flokkast meðal annars hjólreiðar, ganga, almenningssamgöngur og notkun visthæfra bíla.

Stefnan Grænar ferðir er hluti af grænum skrefum í Reykjavík og er liður í því heildarmarkmiði að draga úr bílastæðaþörf, umferðarmyndun á háannatíma í borginni og í því að bæta loftgæði í borginni. Bílum í Reykjavík fjölgaði um 40 prósent frá 1999-2007 á meðan íbúum fjölgaði um 7 prósent. Fjöldi bíla á hverja þúsund íbúa var 676 árið 2007 sem er langt langt umfram þær borgir sem við berum okkur saman við. Rúmlega fimmtungur gróðurhúsalofttegunda sem losaðar eru út í andrúmsloftið koma frá samgöngutækjum. Auknum bílafjölda fylgir aukin mengun og tafir í umferð og hefur neikvæð áhrif á umhverfi, heilsu og borgarbrag.

Innleiðing vistvæns samgöngumáta í starfsemi borgarinnar felur m.a. í sér að reiðhjól og visthæfar bifreiðar eigi að standa starfsmönnum Reykjavíkur til boða vegna vinnuferða í borginni, tryggja góða aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi, fjárfest skal í visthæfum farartækjum þar sem kostur er og taka upp samgöngusamninga við nýtt starfsfólk þar sem það á við í stað aksturssamninga. Samgöngusamningar geta tekið til ólíkra farartækja og ferðamáta, s.s. gangandi, með strætisvagni, á bifreið eða hjólandi, en skulu ávallt hafa það að markmiði að auka hlut vistvæns ferðamáta í vinnuferðum á vegum borgarinnar.

Höfundur er formaður umhverfis- og samgönguráðs.






Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×