Erlent

McCain valdi harðsnúna hægri konu

Óli Tynes skrifar

Sara Palin, varaforsetaefni Johns McCain er ríkisstjóri í Alaska. Hún er 44 ára gömul fyrrverandi fegurðardrottning og fimm barna móðir.

Hún er á móti fóstureyðingum, hlynnt frjálsri byssueign og er sögð búa til frábæra elgborgara úr dýrum sem hún veiðir sjálf.

Þótt Palin hafi um skeið verið talin upprennandi stjarna í Repúblikanaflokknum kom val hennar mjög á óvart. John McCain var talinn ganga framhjá miklu þekktara og reyndara fólki.

Palin komst á blað í pólitíkinni með því að þjóna sem borgarstjóri í Wasilla City í sex ár, við góðan orðstír.

Hún sóttist eftir að vera í framboði Republikanaflokksins um kjörið sem aðstoðar ríkisstjóri í Alaska árið 2002, en fékk ekki. Árið 2006 var hún hinsvegar kjörin ríkisstjóri.

Palin er harðsnúin hægri manneskja og er meðal annars hlynnt dauðarefsingu við sérstaklega viðbjóðslegum glæpum, eins og til dæmis gegn börnum. "Í öllum bænum hengið þið þá upp," sagði hún eitt sinn í umræðuþætti.

Palin er fædd í Idaho og lauk prófi í fjölmiðlafræði og blaðamennsku frá Idaho háskóla árið 1987. Hún fluttist til Alaska með foreldrum sínum árið 1964, þegar þeir fóru þangað til kennslu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×