Erlent

Ítalir ráðast gegn innflytjendum

Óli Tynes skrifar
Silvio Berlusconi lofaði hörku gegn ólöglegum innflytjendum.
Silvio Berlusconi lofaði hörku gegn ólöglegum innflytjendum.

Ítalska lögreglan tilkynnti í dag að hún hefði handekið hundruð manna sem grunaðir eru um að vera ólöglegir innflytjendur. Fimmtíu og þrír þeirra voru samstundis sendir út landi, en mál hinna verða skoðuð nánar.

Hinir handeknu voru frá Austur-Evrópu, Albaníu, Grikklandi, Norður-Afríku og Kína. Þetta er í samræmi við stefnu hins nýja forseta Ítalíu. Eitt af kosningaloforðum Silvios Berlusconis var að taka hart á ólöglegum innflytjendum sem sakaðir eru um aukna glæpatíðni í landinu.

Það hefur margoft orðið til þess að óbreyttir borgarar hafa tekið lögin í sínar eigin hendur og ráðist á innflytjendur sem þekkja má vegna litarháttar eða klæðaburðar. Til dæmis hefur margoft verið kveikt í hreysum sígauna í Napólí.

Ítalir beina sjónum sínum ekki síst að sígaunum. Þeir koma aðallega frá Rúmeníu og öðrum löndum Austur-Evrópu. Þeir búa víða í hreysum sem þeir hafa hrúgað sér upp til þess að mynda lítil hverfi.

Svo mjög er hinni nýju ríkisstjórn í mun að losna við óboðna útlendinga að verið er að hraða nýrri löggjöf í gegnum þingið. Hún felur í sér að vegabréfaskoðun verði tekin upp aftur á landamærum Ítalíu að ríkjum Evrópusambandsins.

Þetta þrátt fyrir að Ítalía sé aðili að Schengen samstarfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×