Fótbolti

Leikmaður Numancia datt í lukkupottinn í Spánarlottóinu

Martinez hefur átt viðburðaríkt ár
Martinez hefur átt viðburðaríkt ár NordicPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn Mario Martinez datt í lukkupottinn þegar dregið var í jólalottóinu árlega á Spáni í gær. Miðjumaðurinn vann sér inn 150,000 evrur, sem er öllu meira en hann hefur í árstekjur hjá liði sínu Numancia.

Það var dagblaðið Marca sem greindi frá þessu í dag og leikmaðurinn var upp með sér yfir vinningnum stóra.

"Ég er ekki vanur að spila í lottó, en ég tek alltaf þátt um jólin af því það er sérstaklega spennandi," sagði Martinez, sem sagðist ekki vera búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera við peningana.

Lottóvinningurinn er rúsínan í pylsuendanum fyrir Martinez, því hinn 23 ára gamli leikmaður skoraði sigurmark Numancia í 1-0 sigri þess á Barcelona í opnunarleik tímabilsins. Það er eini tapleikur Katalóníuliðsins á leiktíðinni.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×